Oddviti bauð alla velkomna og spurði hvort athugasemdir væru við fundarboðun. Engin athugasemd gerð við fundarboðið.
|
1.
|
Viðauki IV 2025 - 2510010
|
|
Oddviti gaf skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið og bað hana að kynna viðaukann. Salbjörg Engilbertsdóttir tók til máls: Lagður er fram svohljóðandi viðauki IV við fjárhagsáætlun Strandabyggðar 2025: Rekstur: a) Framlög Jöfnunarsjóðs og breytingar ársins: 1. Áætlaðar tekjur vegna gjaldfrjálsra máltíða verða kr. 3.378.000 2. Áætlaðar tekjur vegna samþættingar við farsæld barna verða kr. 806.500 3. Áætlaðar tekjur vegna fasteignaframlags hækka um kr. 2.771.500 4. Áætlaðar tekjur vegna útgjaldaframlags lækka um kr. 16.539.000 5. Áætlaðar tekjur vegna grunnskólaframlags lækka um kr. 3.224.500 Heildaráhrif á niðurstöðu framlaga Jöfnunarsjóðs er lækkun tekna um kr. 12.907.500 b) Vegna samkomulags við Árneshrepps um rekstur skólasels skólaárið 2025-2026 eru lagðar til eftirfarandi breytingar á fjárhagsáætlun Strandabyggðar. 1. Tekjur v. endurgreiðslu frá Árneshreppi: 5.500.000 2. Launakostnaður: 4.950.000 3. Annar kostnaður, þjónusta Tröppu og fl. 550.000 Niðurstaða: engin áhrif á niðurstöðu ársins en hér er um að ræða hækkun tekna, hækkun launakostnaðar og rekstrar. c) Skólaskrifstofa og þjónusta Ásgarðs og Tröppu Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir kostnaði upp á 4.500.000 en ljóst er að kostnaður við Menntastefnu og annarrar aukinnar þjónusta kemur til með að hækka kostnað. Lagt er til að áætlun verði hækkuð upp í kr. 7.000.000. Áhrif hækkunar eru því kr.2.500.000 d) Aðalskipulag og þjónusta Landmótunar Í upphaflegri áætlun var lagt upp með að kostnaður við aðalskipulag yrði 11.000.000 en ljóst er að sá kostnaður mun lækka. Lagt er til að lækka áætlun í kr. 6.000.000. Áhrif til lækkunar reksturs eru því kr. 5.000.000. e) Breytingar á launaáætlun Lagt til að gera eftirfarandi tilfærslur á launaáætlun: 1. Grunnskóli,hækkun launakostnaðar kr. 10.000.000 2. Tónskóli,lækkun launakostnaðar kr. 2.000.000 3. Tómstundir, lækkun launakostnaðar kr. 2.500.000 4. Vinnuskóli, lækkun launakostnaðar kr. 3.000.000 5. Skrifstofa, lækkun launakostnaðar kr. 2.500.000 Samantekin áhrif á rekstur Strandabyggðar er eftirfarandi: a. Lækkun tekna Jöfnunarsjóðs kr.12.907.500 b. Skólasel í Árneshreppi kr. 0 c. Skólaþjónusta kostnaður kr.2.500.000 d. Aðalskipulag lækkun kr. -5.000.000 e. Launaáætlun kr. 0 Samtals: 10.407.500 Þar sem tap var á rekstri Strandabyggðar á árinu 2024 mun viðauki þessi hafa aukin neikvæð áhrif á niðurstöðu ársins 2025. Oddviti tók til máls og tók fram að við séum óþægilega háð framlögum Jöfnunarsjóðs og síðan gaf oddviti orðið laust. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og tók undir með oddvita, síðan óskaði hann eftir að leggja fram eftirfarandi spurningar frá A-lista: Í framlögðum viðauka kemur fram að tap sveitarfélagsins eykst um 10.407.500 eins og staðan er núna þ.e. eftir þriðja ársfjórðung. Hvert er þá heildartap á þessu ári orðið núna? Hvernig á að mæta þessu tapi? Þarf það ekki að koma fram í viðaukanum? Svar: Upphafleg áætlun 2025 hljóðaði upp á 28.356.000 í hagnað af A og B- hluta Tap síðasta árs hljóðaði upp á 48.849.000 og það má því reikna með að tap þessa árs verði a.m.k 30.900.500. Oddviti tók til máls og tók meðal annars fram að eina leiðin til að mæta þessum sveiflum sé að auka tekjur t.d með hótelbyggingu og nýju hverfi í Brandskjólum. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og taldi rétt að vanda til verka meðan unnið er að frekari tekjuöflun. Oddviti lagði til að viðauki IV yrði samþykkur. Borinn undir atkvæði og samþykktur samhljóða.
|
|
|
|
2.
|
Lántaka hjá Lánasjóði sveitarfélaga - 2510011
|
|
Oddviti rakti tilurð máls og gaf síðan skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið. Ákvörðun um að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga sem tryggt er með veði í tekjum sveitarfélagsins: Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkir hér með á sveitarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að útgreiðslufjárhæð allt að kr. 40.000.000,- með lokagjalddaga þann 5. nóvember 2055, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Sveitarstjórnin samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstólsfjárhæðinni, uppgreiðslugjaldi, auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Er lánið tekið til að endurfjármagna afborganir á eldri lánum sveitarfélagsins hjá Lánasjóðnum sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006. Jafnframt er Þorgeiri Pálssyni, sveitarstjóra, kt. 100463-5989, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Strandabyggðar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns. Oddviti gaf orðið laust. Mattías Sævar Lýðsson tók til máls óskaði eftir að bera fram eftirfarandi spurningar frá A-lista: Til stendur að taka lán upp á tæpar 48.000.000,- þar sem útgreiðslufjárhæð er 40.000.000.- Afföll af láninu er því tæplega 20% sem sýnir áhættu sem lánveitendur telja vera á þessu láni. Lánsupphæðin er um 5% af áætluðum heildartekjum Strandabyggðar á árinu 2025. Í gögnum vegna lántökunnar kemur fram að lánið eigi að nota til endurfjármögnunar afborgana eldri lána. a. Hvaða áhrif hefur þessi lántaka á skuldahlutfall sveitarfélagsins? Verður hún til þess að við förum yfir 150% þakið? Eða erum við þegar komin í það þak? b. Hve mikið af þessu láni fer í niðurgreiðslu á höfuðstóli lánanna sem verða endurfjármögnuð? c. Hvaða áhrif hefur það á stöðu sveitarfélagsins og getu þess til að standa við skuldbindingar sínar, þar með talið launagreiðslur, ef þetta lán verður ekki tekið? Svar: a) Í fjárhagsáætlun ársins 2025 var gert ráð fyrir 150.000.000 lántöku á árinu 2025 sem setur Strandabyggð í skuldahlutfallið 145,5%. Þetta er síðasta lántaka ársins og hafa þá verið teknar 150.000.000 að láni í heild. Í ársreikningi 2024 er skuldahlutfallið 131%. Við greiðum alltaf niður á hverju ári svo að það rýmkast eitthvað um skuldahlutfallið. Á þessu ári höfum við tekið þrjú önnur lán í þessum flokki og var höfuðstólsupphæðin á þeim lánum umfram útborgunarfjárhæðina samtals 13.879.447 sem ætti að hækka lántökur ársins í heild um þá upphæð. Lán í þessum flokki eru til lengri tíma og með uppgreiðsluheimild. b) afborganir lána í október hljóða upp á 21.milljón ca. Höfuðstóll þeirra er ca. 13 miljónir. Við greiðum af lánum ársins í heild kr. 64 milljónir 2024 c) Það er ekki valkostur að taka ekki þetta lán, enda er lántakan samkvæmt áætlun. Oddviti lagði til að lántakan yrði samþykkt. Borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
3.
|
Yfirdráttarheimild í Arion banka, framlenging - 2510012
|
|
Oddviti gaf síðan skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið. Salbjörg Engilbertsdóttir tók til máls og útskýrði ástæður framlengingar heimildar Oddviti gaf orðið laust. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og tók fram að skrifstofustjóri hefði ekki heimild til að óska eftir framlengingu heimildar heldur sé það sveitarstjóri Þorgeir Pálsson. Oddviti tók til máls og sagði að þetta væri ekki án sinnar vitundar og að skrifstofustjóri væri einfaldlega að vinna að þessu máli. Skrifstofustjóri tók til máls og tók fram að það væri sveitarstjórn sem skrifaði undir samþykki um yfirdráttarheimild. Hlíf Hrólfsdóttir tók fram að hún tæki ekki undir yfirlýsingu Matthíasar Lýðssonar. Oddviti lagði til að beiðni um framlengingu yfirdráttarheimildar hjá Arion banka yrði samþykkt. Tillagan borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða
|
|
|
|
4.
|
Fjárhagsáætlun 2026, umræða um álagningu fasteignagjalda og útsvar - 2510013
|
|
Oddviti vísaði í vinnufund sveitarstjórnar vegna fjárhagsáætlanagerða og gaf síðan skrifstofustjóra, Salbjörgu Engilbertsdóttur orðið. Salbjörg Engilbertsdóttir tók til máls og útskýrði tillögu um álagningu útsvars og fasteignaskatta fyrir árið 2026. A. Útsvar Sveitarstjórn samþykkir að útsvarshlutfall árið 2026 verði jafnt lögbundnu hámarki sbr. Lög um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995 eins og þau eru á hverjum tíma. Við gerð samþykktar þessarar er gert ráð fyrir að hámarkshlutfallið verði áfram 14,97% á árinu 2026. B. Fasteignaskattur a) 0,625% af álagningarstofni íbúðarhúsa, útihúsa, sumarbústaða og jarðeigna ásamt lóðarleiguréttindum skv. a-lið 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Um er að ræða hámarks álagningu. b) 1,32% af álagningarstofni opinbers húsnæðis, skv. b-lið 3. gr.laga nr. 4/1995. c) 1,65% af álagningarstofni allra annara fasteigna og lóða skv. c-lið 3. gr.laga nr. 4/1995 C. Lóðarleiga a) Íbúðarhúsnæði 2,5% af fasteignamati lóðar b) Atvinnuhúsnæði 2,5% af fasteignamati lóðar Afsláttur af fasteignaskatti ellilífeyrisþega og öryrkja sbr. 4. mgr. 5 gr. laga nr. 4/1995 og reglum Strandabyggðar: Elli- og örorkulífeyrisþegar, með lögheimili og búsetu í Strandabyggð, njóta afsláttar af fasteignaskatti sem lagður er á íbúðarhúsnæði og í eigu viðkomandi enda hafi hann þar búsetu og hafi ekki af því leigutekjur. Afsláttur elli- og örorkulífeyrisþega getur þó að hámarki orðið 86.150 kr. á árinu 2026. Afslátturinn er tekjutengdur. Þessar fjárhæðir miðast við árstekjur (heildartekjur) skv. skattframtali næstliðins árs og gilda fyrir lækkun fasteignaskatts á álagningarári. Oddviti gaf orðið laust. Oddviti tók til máls og sagði að sveitarstjórn væri ekki stætt á öðru en að hafa hámarksálagningu á útsvari og fasteignagjöldum. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og tók undir með oddvita og kom inn á að afsláttur ellilífeyrisþega væri í samræmi við nágrannasveitarfélög. Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls. Oddviti lagði til að umrædd álagning fasteignagjalda og útsvarsprósenta yrði samþykkt. Tillagan er borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða
|
|
|
|
5.
|
Velferðaþjónusta Vestfjarða, samningur um sérhæfða velferðarþjónustu á Vestfjörðum - 2510014
|
|
Oddviti gaf Hlíf Hrólfsdóttir, félagsmálastjóra orðið. Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og útskýrði framlagðan samning. Oddviti gaf orðið laust Grettir Örn Ásmundsson tók til máls Oddviti tók til máls Oddviti lagði til að samningur um sérhæfða velferðarþjónstu á Vestfjörðum yrði samþykktur. Borin undir atkvæði og samþykktur samhljóða
|
|
|
|
6.
|
Vestfjarðastofa, tillaga um svæðisbundið farsældarráð Vestfjarða, 09.10.25 - 2510015
|
|
Oddviti rakti tilurð máls en gaf slíðan Hlíf Hrólfsdóttir, félagsmálastjóra orðið. Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls og útskýrði framlagðan samning ásamt starfsreglum og skipuriti. Oddviti lagði til að tillagan yrði samþykkt. Borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
7.
|
Umsögn vegna draga að frumvarpi um breytingar á sveitarstjórnarlögum - 2510021
|
|
Oddviti rakti tilurð máls og vísaði í samskipti sveitarstjórnar. Því næst lagði oddviti fram þá umsögn sem sett var inn í samráðsgátt stjórnvalda í gær, 13.10.25, fyrir hönd Strandabyggðar. Umsögnin er eftirfarandi: „Strandabyggð hefur um nokkurt skeið, undirbúið sig undir umræðu um hugsanlegar sameiningar við önnur sveitarfélög. Kemur þar til einlægur áhugi sveitarstjórnar, en einnig skýr vilji stjórnvalda undanfarinna ára, um að flýta beri sameiningu sveitarfélaga og að þau þurfi almennt að vera færri og stærri. Í frumvarpsdrögum um breytingar á sveitarstjórnarlögum, er þessi ásetningur stjórnvalda sérlega skýr sem og öll nálgun stjórnvalda við málið. Það má t.d. segja að breyting á orðalaginu „ráðuneyti“ í „ráðherra“ skerpi þennan vilja stjórnvalda verulega. Í frumvarpsdrögunum er ráðherra gefin skýrari staða og meira vald yfir umræðunni og hann getur mótað ferlið með skýrari hætti en áður, t.d. er varðar samstarf/samvinnu sveitarfélaga. Aukið samstarf sveitarfélaga er jú oft undanfari sameininga.Aðkoma ráðherra að því stigi getur því talist leiðandi fyrir framhaldið. Í frumvarpsdrögunum eru margar ganglegar breytingar og margt einfaldað og gert skýrara.Í því sambandi vill sveitarstjórn Strandabyggðar taka undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga. Jákvætt er að sveitarfélög þurfa að setja sér „fjármálastefnu“ og fimm ára fjárhagsáætlun. Þetta gæti þó reynst litlum sveitarfélögum erfitt, því hjá mörgum þeirra nær fjárhagsleg sýn ekki mikið lengra en nokkra mánuði fram í tímann. Í frumvarpsdrögunum er tekið á stjórnsýslu, starfsháttum og samvinnu kjörinna fulltrúa.Lögð er áhersla á gerð siðareglna og að öll samskipti séu með jákvæðum formerkjum. Frumvarpsdrögin benda þó ekki á beinar afleiðingar þess að slíkur samstarfsvilji eða siðareglur séu brotnar. Hugsanlega og vonandi verður Sambandi íslenskra sveitarfélaga falin skýrari og meiri aðkoma að þeim þætti stjórnsýslunnar og er það vel. Frumvarpsdrögin gera raunar ráð fyrir skýrari og meiri aðkomu Sambandsins að stjórnsýslu sveitarfélaga, t.d. hvað varðar upplýsingaöflun og úrvinnslu. Það er gott og mikilvægt að efla greingarþátt Sambandsins. Þrátt fyrir að sveitarstjórn Strandabyggðar sé hliðholl sameiningum og kjósi að líta á þær sem tækifæri fremur en kvöð, þá eru frumvarpsdrögin alls ekki hafin yfir gagnrýni þegar kemur að sameiningum sveitarfélaga og tengdum ákvæðum. Það getur t.d. ekki talist alls kostar lýðræðislegt að aðeins 10% kosningabærra manna í sveitarfélagi, geti krafist viðræðna um sameiningu við annað/önnur sveitarfélög. Þetta hlutfall þarf að vera mun hærra, til að sanngirnis sé gætt og lýðræðisleg vinnubrögð viðhöfð. Svo fámennur hópur á ekki að geta kallað fram jafn stóra og afdrifaríka ráðstöfun og þessi grein felur í sér. Sá tímarammi sem frumvarpsdrögin draga upp af ákvörðunum ráðherra og vörðum í vinnu sveitarfélaga að sameiningum, er knappur og getur leitt til þess að undirbúningsvinna og ákvarðanir sveitarstjórna verði ekki af þeim gæðum, sem framtíð íbúa og sveitarfélaganna kallar á. Sveitarstjórn Strandabyggðar skilur vel áhyggjur minni sveitarfélaga og tekur t.d. undir vissa efnisþætti í umsögn Árneshrepps, þó svo hin almenna afstaða Strandabyggðar til sameininga sé önnur. Sveitarstjórn Strandabyggðar hvetur ráðherra til að skoða vel hagsmuni minnstu sveitarfélaganna og þann tímaramma sem ætlaður er til þessarar vinnu. Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga má ekki bara snúast um stöðu og hagsmuni minnstu sveitarfélaganna, heldur líka hvaða áhrif sameining þeirra hefur á önnur, nærliggjandi sveitarfélög og frumkvæði þeirra.“ Oddviti óskaði formlegrar staðfestingar sveitarstjórnar á umsögn þessari. Samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
8.
|
Umsögn vegna matsáætlunar Landsnets um tengivirki Hvalárs- og Miðdalslínu - 2510022
|
|
Oddviti lagði til að afgreiðslu þessa liðar verði frestað til næsta fundar sveitarstjórnar, af óviðráðanlegum ástæðum. Borið undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
9.
|
Sjöfn Sæmundsdóttir, Umsókn um laun í námslotum, 30.09.25 - 2510016
|
|
Oddviti rakti tilurð máls og lagði til að umsóknin verði samþykkt. Oddviti gefur orðið laust. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls. Borin undir atkvæði sveitarstjórnar og samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
10.
|
Náttúruhamfaratrygging Íslands, erindi til sveitarstjórnar, 10.09.25 - 2510017
|
|
Oddviti sagði frá erindinu, sem er lagt fram til kynningar og brýningar. Oddviti gaf orðið laust, enginn tók til máls.
|
|
|
|
11.
|
Vestfjarðastofa, undirbúningur vegna sólmyrkvans 12. ágúst 2026, 09.10.25 - 2510018
|
|
Oddviti lagði til að Sigurður Marinó Þorvaldsson verði tengiliður Strandabyggðar við verkefnið. Oddviti gaf orðið laust. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls. Samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
12.
|
Kvennaathvarf, erindi til sveitarstjórnar, 09.09.25 - 2510020
|
|
Oddviti rakti tilurð máls og gaf orðið laust. Enginn tók til máls. Oddviti leggur til að beiðni um rekstarstyrk verði hafnað. Samþykkt með 4 atkvæðum, Hlíf Hrólfsdóttir situr hjá.
|
|
|
|
13.
|
Skógræktarfélag Íslands, erindi til sveitarstjórnar, 22.09.25 - 2510019
|
|
Oddviti rakti tilurð máls. Sveitarstjórn þakkar fyrir erindið sem er lagt fram til kynningar.
|
|
|
|
14.
|
Fundargerð TÍM nefndar frá 29.09.25 - 2510024
|
|
Oddviti gaf formanni TÍM nefndar, Júlíönu Ágústsdóttur, orðið. Júlíana Ágústsdóttir tók til máls og fór yfir efni fundarins. Tillaga nefndarinnar um frístundastyrki 2026 er tekin fyrir í næsta lið fundarins. Oddviti bætti við til útskýringar að það sé verið að leita tilboða í ryksugun á kurli á sparkvelli. Jafnframt tók hann fram að verið sé að skoða hvaða leiktæki, sem hætt er að nýta á leiskóla, muni verða færð á næstunni á nýjan stað Lillaróló við hlið félagsheimilisins. Oddviti gaf orðið laust. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og fagnaði hækkun frístundastyrks og að sínu mati mætti hækka framlagið meira. Varðandi sparkvöllinn þá hafi hann verið settur upp á vegum KSÍ og mögulega mætti sækja upplýsingar þangað og aðstoð. Að öðru leiti er fundargerðin lögð fram til kynningar.
|
|
|
|
15.
|
Frístundastyrkir 2025-2026 - 2510025
|
|
Oddviti lagði til að tillaga TÍM nefndar verði samþykkt. Samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
16.
|
Fundargerð FRÆ nefndar frá 24.09.25 - 2510023
|
|
Oddviti, sem formaður fræðslunefndar, rakti efni fundarins. Oddviti gaf orðið laust. Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls. Fundargerðin lögð fram til kynningar.
|
|
|
|
17.
|
Fundargerð US nefndar frá 09.10.25 - 2510009
|
|
Oddviti gaf formanni umhverfis- og skipulagsnefndar, Matthíasi Sævari Lýðssyni, orðið. Matthías Sævar Lýðsson rakti efni fundargerðarinnar og liðir til samþykktar eru næstu dagskrárliðir. Enginn annar tók til máls.
|
|
|
|
18.
|
Umsókn um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu að Borgabraut 21 - 2510003
|
|
Oddviti lagði til að tillaga US nefndar verði samþykkt. Samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
19.
|
Umsókn um byggingarleyfi, breytt notkun mannvirkis að Víðidalsá útihús - 2510005
|
|
Oddviti lagði til að tillaga US nefndar verði samþykkt. Samþykkt samhljóða
|
|
|
|
20.
|
Umsókn um byggingarleyfi, breytt notkun mannvirkis að Broddanesi IV - 2510004
|
|
Oddviti lagði til að tillaga US nefndar verði samþykkt. Samþykkt samhljóða
|
|
|
|
21.
|
Vinnuskýrsla sveitarstjóra - 2510026
|
|
Oddviti gaf orðið laust. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og spurði um nokkra liði. Fundur vegna Héraðsnefndar, var haldin fundargerð? Þorgeir Pálsson svaraði því til að haldinn hafi verið fundur með fulltrúum og KPMG og næsti fundur verður í næstu viku. Fundargerð hefur væntanlega verið skrifuð og verður þá send til sveitarstjórnar. Hreinsunarátak á Tanganum hvernig stendur það mál. Þorgeir Pálsson tók fram að unnið verði að þessu á næstunni og það er skýr vilji eiganda að fjarlægja ónýta hluti. Finna þarf lausn fyrir þá gáma sem þurfa rafmagn. Kvótamál og landanir, hvað var verið að fjalla um. Þorgeir Pálsson tók fram að um væri að ræða samantekt á löndunum í Hólmavíkurhöfn á móti löndunum í nágrannasveitarfélögum þ.e bátar sem eru skráðir hér og landa annarsstaðar. Hönnun Bröttugötu og tenging við Kópnesbraut. Þorgeir Pálsson tók fram að tillaga hefði komið frá Verkís um að fá verktaka til mæla upp götuna. Það þarf að teikna þetta upp og reikna út kostnað við breytingu. Gamli skólinn, hvað er að frétta af því máli. Þorgeir Pálsson tók fram að Efla hafi gert dna rannsókn á bókasafninu og þar hafi ekki mælst mygla en mygla hafi greinst í útvegg að rananum milli nýrri skóla og eldri. Búið er að hreinsa upp umrætt svæði. Verkefni frá síðasta sveitarstjórnarfundi. Hver voru svör Náttúrustofu Vestfjarða vegna stöðugildis í Strandabyggð. Þorgeir Pálsson tók fram að stjórnendaskipti hefðu nýlega orðið og þvi sé málið ekki lengra komið. Fyrirspurn til Orkubús Vestfjarða varðandi jarðhitaleit á Gálmaströnd. Þorgeir Pálsson sagði að svar hafi ekki borist. Að öðru leiti er vinnustkýrslan lögð fram til kynningar.
|
|
|
|
22.
|
Skipulagsgátt, Umsagnarbeiðni vegna breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps 2022-2034 - 2510028
|
|
Oddviti gaf orðið laust. Hlíf Hrólfsdóttir tók til máls. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls. Oddviti lagði til að sveitarstjórn Strandabyggðar gerði ekki athugasemd við breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps og að sveitarstjóra verði falið að skila inn umsögn þar um. Samþykkt samhljóða.
|
|
|
|
23.
|
Heilbrigðisnefnd Vestfjarðasvæðis, fundargerð 153. fundar, 25.09.25 - 2510029
|
|
Oddviti gaf orðið laust. Matthías Sævar Lýðsson tók til máls og sagði að þarna væru lagðar til breytingar á Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða. Hann sagðist hafa áhyggjur af tilfærslu starfa frá Vestfjörðum. Oddviti tók undir áhyggjur Matthíasar Sævars Lýðssonar og styður eftirfarandi tillögu: Sveitarstjórn Strandabyggðar lýsir yfir áhyggjum sínum af breytingum á Heilbrigðiseftirliti Vestfjarða og tekur undir þær áhyggjur sem koma fram í fundargerð 153. fundar Heilbrigðisnefndar Vestfjarðasvæðis frá 25.september 2025. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða. Fundargerð lögð fram til kynningar.
|
|
|
|
24.
|
Svæðisskipulagsnefnd Vestfjarðasvæðis, fundargerð 153. fundar, 25.09.25 - 2510030
|
|
Tekið er fram að númer fundar Svæðisskipulagsnefndar er númer 20 en ekki 153 eins og misritaðist í fundarboðun. Enginn tók til máls. Fundargerðirnar lagðar fram til kynningar.
|
|
|
|
25.
|
Vestfjarðastofa og Fjórðungssamband Vestfjarða, fundargerð stjórnar nr. 71 og 72, 27.08.25 og 24.09.25 ásamt fundargerð stjórnar Fjórðungssambands Vestfjarða, 19.08.25 - 2510031
|
|
Oddviti tók til máls og tók fram að í fundargerðum komi fram ályktanir vegna umfjöllunar um fjárlög. Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
|
|
|
|
26.
|
Hafnasamband Íslands, fundargerð stjórnarfundar nr. 475, 10.09.25 - 2510032
|
|
Fundargerðin lögð fram til kynningar
|
|
|
|
27.
|
Samband íslenskra sveitarfélaga, fundargerð stjórnarfundar nr. 984 og 985, 12.09.25 og 26.09.25 - 2510033
|
|
Fundargerðir lagðar fram til kynningar.
|
|
|
|